Monday, September 6, 2010

Náttúrulegt Detox án Jónínu Ben


Detox er nýjasta orðið sem ég hef hef heyrt notað um niðurgang og úthreinsun á úrgangsefnum mannslíkamans. Nú er það tískufyrirbrigði sem áður var þagað yfir og þótti hálf skammarlegt.

Fólk var almennt ekki að tala mikið um það ef það fékk niðurgang eða drullu eins og það var stundum kallað í mínu ungdæmi. Það hafði hljótt um það ef hægt var.

Núna er farið með það í fréttir og dásamað sem nauðsyn hverrar HREINNAR manneskju. Þannig að þeir sem ekki fara til Jónínu Ben í Detox fá að heyra að þeir séu skítugir og fara jafnvel að skammast sín. Þeir eru líka slapkenndir í vexti og þeim líður illa….. allavega segja þeir úthreinsuðu það blákalt.

En nú geta landsmenn glaðst óendanlega. Þeir þurfa ekki að borga Jónínu neina seðla fyrir úthreinsunina en geta samt fengið sitt Detox og fengið hraustlegt og gott útlit og að ég tali nú ekki um hvað þeir verða HREINIR að innan á eftir.

Við förum að sjá þessa hraustu og hressu landa okkar von bráðar þegar þeir eru búnir að gúffa í sig berjunum sem þeir hafa tínt undanfarið.

Berjatínslan og átið getur því gert okkur að betri mönnum.


No comments: